Afstaðan til aldurs hefur breyst hratt á undanförnum árum. Könnun, sem norræni bankinn Nordea hefur gert sýnir, að fólk sem er á milli fimmtugs og sjötugs, lítur ekki lengur á sig sem kynslóð aldraðs fólks og langflestir á þessum aldri vilja nota peningana sína til að uppfylla ýmsa drauma frekar en að arfleiða börn sín að þeim.
Sagt er frá þessu á vef danska blaðsins Berlingske Tidende. Þar segir að sérfræðingar telji þetta sýna, að afstaða til aldurs sé að taka miklum breytingum. Tala megi í raun um nýtt aldursskeið á milli þess að verða fullorðinn og gamall.
„Fólk á aldrinum 50-70 ára hefur allt aðra afstöðu til lífsins en foreldrar þess þegar þeir voru á sama aldri. Þeir sem eru á sextugsaldri nú telja aldur sinn ekki vera neina hindrun. Því finnst að fólk verði ekki gamalt fyrr en eftir áttrætt - eða tveimur árum eftir að meðal Norðurlandabúinn er allur," hefur blaðið eftir Mie Ole Lauritzen, verkefnisstjóra DI Fødevarer, sem hefur gert umfangsmikla mannfræðilega rannsókn á fólki yfir fimmtugu og efnahagsleg áhrif þess á dönsk fyrirtæki.
Fólk á þessum aldri er nú 35% af dönsku þjóðinni og á um 70% af eignum einstaklinga í Danmörku. Það ætlar að nota þessar eignir í eigin þágu, njóta lífsins og láta drauma sína rætast. „Langi það til að ganga á Kilimanjaro eða ferðast til Las Vegas og fara á tónleika með Celine Dion þá lætur það slag standa," hefur Berlingske eftir Henrik Byager, sem titlaður er lífsstílssérfræðingur.
Útvarpskonan Monica Krog-Meyer, sem hefur skrifað bók um árin eftir fimmtugt, segir að þróunin sé uppgjör gagnvart ellinni.
„Mín kynslóð er nú á nýju skeiði milli þess að vera follorðinn og gamall en foreldrar okkar upplifðu það ekki. Við drögum okkur ekki í hlé eins og foreldrar okkar gerðu."