Meira en helmingur fullorðinna Bandaríkjamanna horfa á myndbönd á netinu og hafa grínmyndbönd nú tekið við af fréttaskotum sem vinsælasta sjónvarpsefni á internetinu, samkvæmt könnun sem birt var í dag.
Könnunin, sem rannsóknarsetrið Pew stýrði, sýnir að 69% af fullorðnum netnotendum nota vefinn m.a. til að horfa á eða hlaða niður myndböndum. Æ fleiri fullorðnir netnotendur eru líka farnir að hlaða upp sínu eigin efni á vefinn, eða 14% en árið 2007 voru það 8%. Helmingur netnotenda segist hafa horft á grínmyndbönd á netinu, sem er töluverð aukning frá 2007 þegar 31% höfðu gert það. Grínmyndbönd eru því vinsælli en fréttir, því 43% hafa horft á fréttaskot á netinu, sem er þó einnig aukning því sá hópur taldi 37% árið 2007.
38% segjast hafa horft á fræðslumyndbönd á vefnum, en árið 2007 voru það 22%. Þá horfa 32% á kvikmyndir og sjónvarpsþætti á netinu, sem er tvöfalt fleiri en fyrir þremur árum. Myndbönd um stjórnmál verða líka sífellt vinsælli því 30% fylgjast með slíkum myndböndum í dag á meðan aðeins 15% gerðu það fyrir þremur árum. Þrátt fyrir þetta er aðeins lítill hópur netnotenda sem segist tilbúin að greiða fyrir efni á vefnum. Einn af hverjum 10 sem horfa á myndbönd á vefnum, eða 7% allra netnotenda, segjast hafa greitt fyrir að horfa, sem er þó aukning úr 3% árið 2007.
„Við sjáum að það er mikil bylgja í áhorfi myndbanda á netinu," segir Kristen Purcell, sem framkvæmdi rannsóknina fyrir Pew. Rekja megi aukninguna til aukins aðgangs að háhraðanettenginu, aukinni notkun samskiptasíðna og aukinna vinsælda myndbandasíðna s.s. Youtube. „Óteljandi fjöldi vefsíðna hefur nú myndbönd sem hluta af efnistökum sínum."
Fólk á aldrinum 18 til 29 ára horfir langmest á myndbönd á vefnum.