Repjuolía á ráðherrabíl

Kristján Möller samgönguráðherra fór í heimsókn til Siglingastofnunar í dag og fékk á bílinn íslenskt umhverfisvænt eldsneyti sem Hermann Guðjónsson siglingamálastjóri og Gísli Viggósson forstöðumaður Rannsókna- og þróunarsviðs afhentu.

Um er að ræða fyrsta bíódísilinn sem framleiddur hefur verið á Íslandi í sérsmíðuðum búnaði í eigu Siglingastofnunar, en eldsneytið er afrakstur rannsóknarverkefnis sem stofnunin hleypti af stokkunum fyrir tveimur árum, samkvæmt fréttatilkynningu.

Var verkefnið í umsjón Jóns Bernódussonar verkfræðings hjá Siglingastofnun og unnið í samstarfi við Landbúnaðarháskóla Íslands og bændur á nokkrum stöðum á landinu. Fól það í sér tilraunaræktun á tvíærum káljurtum sem nefnast repja og nepja sem úr má vinna m.a. umhverfisvæna dísilolíu. Jafnframt gerði það ráð fyrir að ræktað væri á annars ónýttum landsvæðum og kæmi þannig ekki í stað matvælaræktunar.


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert