Nú hefur fengist staðfest það sem marga Indverja hefur lengi grunað, að þeir búa við eitt mesta skriffinnskukerfi í heimi. Ráðgjafastofa á Hong Kong sem gerði könnun með viðtölum við framkvæmdastjóra rúmlega 1.300 fyrirtækja í Asíu og var niðurstaðan sú að hvergi eru stjórnsýsluformsatriði eins stíf og kerfið eins þungt í vöfum og á Indlandi.
Mat var lagt á skriffinnsku á skalanum frá 1 til 10 og fékk Indland einkunnina 9,41. Þetta virðist þó ekki draga úr framleiðni í landinu, en mörg erlend fyrirtæki segja þó að velgengni á Indlandi sé möguleg þrátt fyrir stíft kerfi, en ekki vegna þess. Hið opinbera á Indlandi hefur enn ekki brugðist með neinum hætti við þessum niðurstöðum.
Það þykir með ólíkindum erfitt og flókið að stofna nýtt fyrirtæki á Indlandi og að ljúka samningum er nánast ómögulegt. Fögur loforð sem oft hafa verið gefin um að létta á kerfinu daga jafnan uppi samkvæmt skýrslunni. Þá kemur fram að sterk tengsl séu jafnan á milli skriffinnsku og spillingar og að á Indlandi sé sú trú ríkjandi að embættismenn og skriffinnar hvers konar séu eigingjarnir og ónæmir á þarfir fólksins sem þeir eigi með réttu að þjónusta.
Í skýrslunni þykir ástæða til að varpa fram þeirri spurningu hversu mikið betur Indlandi myndi vegna ef unnt væri að draga úr óþarfa skriffinnsku, því ljóst þykir að mikillar óánægju með kerfið gætir meðal erlendra fjárfesta og meðal Indverja sjálfra.