Vinnusálfræðingar hafa áhyggjur af því að kaffihléið á vinnustöðvum sé að hverfa. Í stað þess að samstarfsfólk setjist niður yfir kaffi- eða tebolla og spjalli um vinnuna er orðið algengara að starfsfólk drekki kaffibollann sinn einir fyrir framan tölvuskjáinn. Þetta er að mati Helge Søndergård Hvid, prófessors við Hróarskelduháskóla, mikið áhyggjuefni og hefur neikvæð áhrif á vinnuumhverfið.
Nestlé, sem framleiðir m.a. duftkaffi, hefur rannsakað kaffivenjur Dana í vinnunni. Könnunin leiðir í ljós að 84% allra þeirra sem eru á vinnumarkaði í Danmörku drekka kaffi í vinnutímanum. Í æ fleiri tilvikum drekka starfsmenn hins vegar kaffið sitt einir við tölvuna sína í stað þess að setjast niður með samstarfsfélögunum.
Árið 2008 sögðust 58% svarenda í sambærilegri könnun drekka kaffið sitt í hópi vinnufélagar, en tveimur árum seinna sögðust aðeins 53% gera það. Á sama tíma sögðust 89% svarenda nýta kaffihléið í vinnunni til þess að tala um vinnuna og 50% svarenda töldu að kaffihléið væri góð leið til þess að leysa þau vandamál sem fyrir hendi gætu verið. Sökum þessa telja vinnusálfræðingar að það væri mikill missir af kaffihléum.
„Það skiptir ekki höfuðmáli hvort fólk drekkur kaffi, te eða vatn. Það er sjálft hléið sem er mikilvægt, ekki síst til þess að leysa fyrirliggjandi vandamál. Þannig geta stutt en óformleg hlé haft mjög jákvæð áhrif á vinnandann,“ segir Helge Søndergaard Hvid.