Notendur þriðju kynslóðar iPad í Bandaríkjunum eiga á hættu að tölvuþrjótar komist yfir persónuupplýsingar þeirra og geti notað þær til ýmiskona rafrænna svindla og jafnvel „hakkað“ sig inn í harða disk tækisins.
Frá þessu segir í frétt á gawker.com. AT&T, stærsta símafyrirtæki Bandaríkjanna, mun hafa staðfest veikleika í öryggiskerfinu en hann mun vera bundinn við þau tæki sem fyrirtækið þjónar. Apple ber þó ábyrgð á að tryggja persónuöryggi notenda og er því ekki útilokað að rót vandans liggi í tækinu en ekki þjónustu AT&T.
Talið er að þegar upplýsingar um 114.000 notendur séu aðgengilegar tölvuþrjótum standi vilji þeirra til þess en mögulegt er nálgast megi upplýsingar allra notenda í Bandaríkjunum.
Forsvarsmenn Apple hafa enn ekki tjáð sig en málið þykir hið vandræðalegasta. Ekki er það síst vegna þess að fyrir nokkrum vikum skildi starfsmaður Apple við sig frumgerð nýja iPhone á öldurhúsi.