Hugbúnaðarfyrirtækið Google vinnur nú að hugbúnaði sem gera á dagblöðum kleift að taka gjald fyrir aðgang að fréttaefni á netinu með einföldum hætti með aðstoð leitarvélar fyrirtækisins.
Með hugbúnaðinum, sem kallast NewsPress, fá notendur einn veflykil fyrir alla fréttavefi. Niðurstöður í fréttaleit Google verða annað hvort merktar sem ókeypis eða að gjald sé tekið fyrir aðgang að þeim. Útgefendur dagblaða geta síðan ákveðið hvort þeir selja fréttaefni sitt í áskrift eða í lausasölu.
Gert er ráð fyrir að þessi þjónusta Google verði í boði síðar á þessu ári á Ítalíu til að byrja með og ef vel gengur verður hugsanlega boðið upp á hana í fleiri löndum.