Milljörðum bandaríkjadala er árlega varið í að umbuna fólki sem vernda vatnsból sem eru í hættu. Mest af fjármagninu kemur frá Kína, samkvæmt nýrri rannsókn sem birt var í dag.
Það verður sífellt algengara að ríkisstjórnir sem og einkafyrirtæki og félagasamtök setji sér sérstakar áætlanir um vatnsvernd sem „geta hjálpað til við að koma í veg fyrir yfirvofandi vatnsskort í heiminum," að því er segir í skýrslunni sem bandaríska stofnunin Ecosystem Marketplace sendir frá sér í dag.
Búist er við því að fjárstreymi í slík verkefni muni aukast mjög á komandi árum samkvæmt skýrslunni. Áætlað er að nú þegar sé um 9,3 milljörðum dala á ári varið í slík verkefni á heimsvísu. Þar af komu 7,8 milljarðar dala frá Kína árið 2008, þegar rannsóknin var gerð. Stærstur hluti þess fjármagns rennur frá kínverskum yfirvöldum til bænda gegn því að þeir dragi úr mengun í nágrenni sínu við skóglendi. Næst á eftir Kína er Suður-Ameríka sá heimshluti þar sem mestu er varið í vatnsverndarverkefni og þar á eftir Bandaríkin.