Háskóli Íslands og Harvard School of Public Health hafa endurnýjað samstarfssamning um sameiginlegt vísindastarf sem felur í sér samvinnu í rannsóknum og kennslu ásamt þjálfun og leiðbeiningu ungra vísindamanna.
Samningurinn er milli milli Miðstöðvar í lýðheilsuvísindum við Háskóla Íslands og Faraldsfræðideildar Harvard Háskóla, samkvæmt fréttatilkynningu.
Hornsteinn samstarfsins er rannsókn á krabbameini í blöðruhálskirtli sem hefur ekki verið rannsakað jafnítarlega og mörg álíka algeng krabbamein.
Rannsóknarverkefni Miðstöðvar í lýðheilsuvísindum og Faraldsfræðideildar Harvard School of Public Health á krabbameini í blöðruhálskirtli byggja á einstökum íslenskum efniviði frá Hjartavernd og Krabbameinsskrá, samkvæmt fréttatilkynningu frá HÍ.
Miðstöð í lýðheilsuvísindum vinnur nú að rannsóknum í samvinnu við Faraldsfræðideild Harvard School of Public Health, Krabbameinsfélag Íslands, Hjartavernd og Landspítala Háskólasjúkrahús á blöðruhálskrabbameini.
Rannsóknirnar snúa að áhættuþáttum sem og forspárþáttum um framvindu sjúkdómsins, t.d. um áhrif mataræðis ásamt streitu og svefnvenja á framþróun sjúkdómsins. Tveir doktorsnemar í lýðheilsuvísindum við Háskóla Íslands og tveir nýdoktorar vinna við þessar rannsóknir í samvinnu við fræðimenn allra ofantalinna stofnanna.
Rannsóknirnar eru meðal annars studdar af Rannsóknarsjóði Íslands og Krabbameinsfélaginu Framför, en Framför hefur það að markmiði efla og styðja við rannsóknir og fræðslu á krabbameini í blöðruhálskirtli.