Knattspyrnulið kínverskra vélmenna bar sigur úr býtum á Alþjóðlegum ólympíuleikum vélmenna. Leikarnir eru haldnir árlega og fóru að þessu sinni fram í Kína. Heimamenn unnu bæði sigur í flokki stórra og smárra vélmenna.
Ólíkt því sem áhorfendur eiga að venjast á heimsmeistaramótinu í knattspyrnu þá var lítið um öskrandi stuðningsmenn eða lúðrablástur. Stemningin og góð tilþrif voru hins vegar til staðar.
Að þessu sinni mættust lið frá Kína, Bandaríkjunum og Suður-Kóreu. Tveir sáu um að stýra útileikmönnum á meðan einn sá um stýra markverðinum.
Guo Weichao, nemandi við tölvunarfræði hjá Harbin tækniháskólanum, sagði eftir sigur sinna manna að vélmennaliðið væri betra en kínverska landsliðið í knattspyrnu. Vélmennin verði t.d. aldrei þreytt.