Fésbókin öryggisógn

Kínverskir sérfræðingar telja að fésbókina megi nota til niðurrifsstarfsemi.
Kínverskir sérfræðingar telja að fésbókina megi nota til niðurrifsstarfsemi. THIERRY ROGE

Samfélagsnet á borð við Facebook geta reynst Kínverjum öryggisógn, en slík net eru notuð til niðurrifs af vestrænum þjóðum, m.a. Bandaríkjunum. Þetta er mat kínverskra sérfræðinga að því er fram kemur í skýrslu sem kínversk hugveita sendi frá sér í vikunni.  

Óeirðir ólíkra þjóðernishópa líkt og áttu sér stað í Xinjiang héraðinu í vesturhluta Kína á síðasta ári má rekja til bloggsíðna að því er segir í ársskýrslu ríkisrekinnar félagsvísinda akademíu um hina nýju miðla.

Fésbókin hafi reynst vettvangur fyrir fjöldafundi aðskilnaðarsinna frá Xinjiang sem búsettir eru utan Kína. 

„Þessi samfélagsnet eru orðin pólitískt niðurrifstæki sem vestrænar þjóðir, m.a. Bandaríkjamenn, nota,“ segir í skýrslunni.

Samfélagssíður á borð við Facebook og Twitter eru bannaðar í Kína. 

Þúsundum manna af þjóðarbroti Uighur-múslima lenti saman við kínverska meirihlutann í Xinjiang í júlí á síðasta ári. Rúmlega 200 manns létust í átökunum og 1,700 slösuðust og eru þetta mestu átök ólíkra þjóðarbrota í Kína í áratugi. 

Í kjölfar átakanna lokuðu yfirvöld á netaðgang í Xinjiang í tæpt ár.

„Þegar horft er til vinsælda samfélagssíðna ... þá er mikilvægt að hafa stjórn á þeim,“ segir í skýrslunni þar sem mælt er með að Kínverjar séu vakandi um mögulegar hættur sem samfélagssíðunum fylgi.

Þó Fésbókin sé bönnuð í Kína njóta bloggvefir á borð við kínverska vefin Kaixin, mikilla vinsælda.


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert