Loftfar bandaríska sjóhersins er nú statt í New Orleans þar sem það mun taka þátt í hreinsunarstarfi vegna olíulekans í Mexíkóflóa. Olía hefur lekið úr borholu á botni flóans vikum saman og ekki er að sjá að skrúfað verði fyrir lekann á næstunni.
Auk þess að aðstoða við hreinsunarstarfið er loftfarinu ætlað að koma auga á sjávardýr í neyð. Howard Wright, yfirmaður bandarísku strandgæslunnar, segir loftfarið mikilvæga viðbót í baráttunni við olíulekann.
„Það [loftfarið] getur verið lengi á staðnum til að koma auga á olíu, koma auga á hvar hjálpin er næst og koma henni á staðinn til að berjast við olíuna,“ segir hann.
Loftfarið er væntanlegt til Gulfport Mississippi þar sem strandsvæðin standa fyrir gríðarlegri umhverfisógn. Í gær skolaðist olía á strendur í suðausturhlutanum. Fyrr í vikunni flæddi olíumengaður sjór yfir varnarmúr og fór yfir stórt mýrlendi.
Í fyrradag greindu yfirvöld frá því að 35 sjófuglar, sem drápust af völdum olíu, hefðu fundist við strandlengju Mississippi. Ekki hafa jafn margir dauðir fuglar fundist á einum degi.