SÁÁ tekur nú þátt í rannsókn á lyfi, sem takið er geta dregið úr amfetamínfíkn og þannig hindrað að amfetamínfíklar leiðist á ný í neyslu. Fram kemur á vef SÁÁ að lyfið heiti naltrexone og hafi verið notað í nokkur ár við áfengissýki með nokkrum árangri.
Sænskir vísindamenn gerðu nýlega rannsókn sem gefur vonir um að lyfið geti komið í veg fyrir að
amfetafínfíklar falli.
Öllum undirbúningi er lokið og öll tilskilin leyfi liggja fyrir og rannsóknarstarfið hófst á Vogi í síðustu viku. Það er undirstofnun bandaríska heilbrigðisráðuneytisins, NIDA, sem kostar rannsóknina að mestu en nokkur kostnaður mun falla á SÁÁ. Stofnunin segir, að ekki hafi tekist að fá innlenda aðila til að styrkja rannsóknina enn sem komið er.
Lyfjarannsóknin er tvíblind sem kallað er og verður sjúklingum gefin
forðasprauta einu sinni í mánuði í hálft ár. Sjúklingar fá að öðru
leyti venjulega meðferð við sinni fíkn og sækja göngudeildarstuðning að
stofnanameðferðinni lokinni.
SÁÁ segir, að lyfið sé dýrt og rannsóknin einungis möguleg vegna þess að lyfjafyrirtækið Alkermes lætur lyf og lyfleysur af hendi endurgjaldslaust.
Samstarfsaðili SÁÁ í rannsókninni er Pennsylvaniaháskóli í Bandaríkjunum.