Bandaríska netverslunin Amazon.com sagði í gær, að sala á rafbókum, sem hægt er að lesa í Kindle lestölvu, væri nú orðin meiri en sala á venjulegum prentuðum og innbundnum bókum.
Jeff Bezos, forstjóri Amazon, sagði jafnframt að sala á Kindle tölvum hefði þrefaldast eftir að fyrirtækið lækkaði verð á þeim úr 259 dölum í 189 dali fyrir mánuði.
Bezos nefndi ekki sölutölur en sagði, að nú seldust fleiri bækur í tölvutæku formi en prentaðar bækur. „Þetta er merkilegt í ljósi þess að við höfum selt prentaðar bækur í 15 ár en rafbækur í 33 mánuði," sagði hann.
Amazon segir, að á undanförnum þremur mánuðum hafi fyrirtækið selt 143 rafbækur á móti hverjum 100 innbundnum bókum. Í júní var þetta hlutfall komið í 180 rafbækur á móti 100 innbundnum bókum.
Amazon ákvað að lækka verð á Kindle lestölvunni í júní vegna samkeppni frá iPad spjaldtölvunni frá Apple. Þá setti Amazon nýja og stærri útgáfu af Kindle á markaðinn 1. júlí og lækkaði verðið úr 489 dölum í 379 dali.
Ódýrasta iPad tölvan kostar 499 dali. Hún er með litaskjá en Kindle er með svarthvítan skjá og aðeins er hægt að nota hana til að lesa bækur og blöð á rafrænu formi.