Brýnasta verkefni Microsoft nú er að þróa spjaldtölvu sem keyrir Windows, að því er Steve Ballmer, forstjóri Microsoft, sagði í dag. Hann lét þessi orð falla á fundi með fjármálasérfræðingum í höfðustöðvum Microsoft. Fundurinn var sendur út á netinu.
Hann sagði að Microsoft yrði að leggjast á eitt með samstarfsfyrirtækjum á sviði vélbúnaðarsmíði. Markmiðið er að smíða spjaldtölvu sem getur keppt við hina vinsælu iPad tölvu frá Apple.
Ballmer lét jákvæð orð falla um iPad spjaldtölvuna en hún mætir þörfinni fyrir tölvur með snertiskjám sem fylla bilið á milli snjallsíma og kjöltutölva.