Mikið sólgos varð á sólinni um níuleytið síðastliðinn sunnudagsmorgun, 1. ágúst. Þorsteinn Sæmundsson, stjörnufræðingur, segir að gosið virðist hafa náð til óvenju stórs svæðis á sólinni. Sólgosið getur mögulega truflað raforkukerfi á jörðu, fjarskipti og gervihnetti.
Þorsteinn sagði að nú sé ekki mikið um sólbletti, einn er nálægt miðri sól. Ef til vill tengist hann sólgosinu, en hann er þó ekki nægileg skýring, að mati Þorsteins. „Það er eitthvað meira á ferðinni þarna,“ sagði Þorsteinn.
Hann sagði að búast megi við ýmsum truflunum hér á jörðu vegna sólgossins, ekki síst vegna þess að það gerist nálægt miðri sól. Þó höfðu ekki neinar slíkar truflanir komið fram hér á jörðu síðdegis í dag, eins og sjá má á mælum Segulmælingastöðvarinnar í Leirvogi.
Ef áhrif sólgossins ná til jarðar má búast við að þeirra gæti í kvöld eða í síðasta lagi á morgun. Sé sólstormurinn sterkur má búast við að norðurljós og suðurljós sjáist nær miðbaug en vant er.
„Þetta getur valdið ýmiss konar truflunum. Ef þetta er mjög mikið þá getur það spanað upp strauma,“ sagði Þorsteinn. Hann sagði dæmi þess að fyrirbæri af þessu tagi hafi slegið út rafmagni á stórum svæðum. Einnig geti þetta haft áhrif á gervitungl og fjarskipti.
„Ég vil ekki segja að það muni gerast núna, síður en svo,“ sagði Þorsteinn. „Það er ekkert öruggt í þessu. Þetta gæti meira að segja farið framhjá án þess að hitta jörðina.“
Sólvirkni hefur verið lítil undanfarið og er lítil ennþá. Þorsteinn sagði að stórt sólgos nú komi því nokkuð á óvart. Hann sagði að fyrrgreind áhrif sólgoss á daglegt líf manna verði ekki nema í verstu tilfellum, en vissulega séu dæmi um slíkt. Þetta geti gerst.
Þetta hafi hins vegar gerst mjög sjaldan á því stigi sólblettaskeiðs sem nú stendur yfir. Sólblettavirkni sé enn mjög róleg. Fyrrgreind áhrif komi miklu oftar nær hámarki sólblettavirkni sem er á 11 ára fresti.