Áhrif eldgossins á plöntusvif

Eldgosið í Eyjafjallajökli gefur vísindamönnum óvænt og einstakt tækifæri til rannsókna á lífríki sjávar, segir í frétt á vef CNN.

Alþjóðlegt teymi vísindamanna vinnur nú um borð í RSS Discovery í Norður-Atlantshafinu við rannsóknir á hliðaráhrifum eldgosa á upptöku koltvísýrings í sjónum.

Plöntusvif er mjög mikilvægur hlekkur í lífríki jarðar þar sem það bindur koltvísýring úr andrúmsloftinu í djúpsævi.

En vöxtur plöntusvifs á sumum svæðum er takmarkaður vegna skorts á járni í sjónum og er hafsvæðið við Norðurpólinn talið eitt af þeim. Plöntusvifið þar blómstrar á vorin en deyr fljótlega yfir sumartímann.

Vísindamennirnir kanna nú hvort eldfjallaaskan hafi aukið járnmagn í sjónum á svæðinu nógu mikið til að lengja líftíma plöntusvifsins.

Það er hafrannsóknarstofnun Bretlands sem stendur fyrir leiðangrinum, en undirbúningur hófst nokkrum árum áður en eldgosið í Eyjafjallajökli hófst.

Eric Achterberg prófessor, sem leiðir rannsóknarteymið, sagði í viðtali við CNN að vísindamennirnir væru ótrúlega heppnir að Eyjafjallajökull skyldi færa þeim þessa frábæru tilraun upp í hendurnar.

„Yfirleitt er járnmagnið svo lágt hér að plöntusvifið lifir mjög stutt eftir að það springur út. En eftir eldgosið hefur mun meira járn fallið í hafið svo við höfum hér frábært tækifæri til að kanna hvort plöntusvifið standi lengur í blóma.“

Leiðangurinn hófst 4. júlí og stendur í fimm vikur. Skipið er nú statt milli Grænlands og Íslands.

Annar leiðangur var farinn í apríl og maí og lentu vísindamennirnir þá í öskufalli eldgossins í Eyjafjallajökli.

„Eldgosið hófst þegar hópurinn var að skoða aðstæður fyrir blómsturtímann í vor. Skipið sigldi svo beint inn í öskuskýið sem var stórkostleg lífsreynsla, en ekki mjög heilsusamleg reyndar.“

Actheberg segir skipið þá hafa siglt alveg upp að ströndum Íslands og mældist mikil aukning á járni í sjónum.

„Það setti úr skorðum möguleika okkar til að skoða hvort járnskortur væri á svæðinu en í stað þess fengum við magnað tækifæri til að skoða hvort stórt eldgos geti aukið plöntusvif og þannig aukið bindingu koltvísýrings í hafinu.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert