Stærsti segulstormur frá 2006

Norðurljósin sáust nokkuð víða vegna segulsstormsins í nótt.
Norðurljósin sáust nokkuð víða vegna segulsstormsins í nótt. hag / Haraldur Guðjónsson

Segulstormurinn sem gekk yfir í nótt er sá mesti síðan í desember 2006. Þorsteinn Sæmundsson stjörnufræðingur segir að stormurinn hafi gengið yfir kl. 3 í nótt, en hann útilokar þó ekki að annar stormur eigi eftir að ríða yfir í kvöld.

„Það er orðið kyrrt aftur. Það gæti þó komið önnur gusa í kvöld eða síðar. Þessi segulstormur stóð ekki mjög lengi eða í rúmlega sólarhring. Það er langt síðan við höfum séð svona mikla ókyrrð eða ekki síðan í desember 2006. Það var reyndar miklu meiri stormur en þetta. Frávikið í misvísun var um 2 gráður fram og til baka frá meðalstöðu, en frávikið var um 7 gráður árið 2006.“

Í segulstormum sem þessum birtast norðurljós á himnum. Þorsteinn segir að það hafi sést norðurljós nokkuð víða, m.a. í Bandaríkjunum, Kanada og Skandanavíu.

Þorsteinn segist ekki hafa fengið neinar fréttir af því að þessi segulstormur hafi valdið truflunum, en dæmi eru um að sterkir segulstormar hafi valdið rafmagnstruflunum og að gervitungl hafi orðið fyrir truflunum. Þorsteinn segir að þetta sé ekki það mikill stormur að líklegt sé að hann hafi valdið skaða. Hann segir að það sé hins vegar ekki víst að þetta sé yfirstaðið.

Mælistöðin í Leirvogi

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert