Fagrar konur fá síður „karlmannleg“ störf

Hefði Natalie Portman viljað vera fjármálastjóri en ekki leikkona má …
Hefði Natalie Portman viljað vera fjármálastjóri en ekki leikkona má búast við að útlitið hefði orðið henni fjötur um fót.

Fegurð á sínar ljótu hliðar, að minnsta fyrir konur. Svo virðist nefnilega sem fallegar konur séu misrétti beittar þegar þær sækja um störf sem samkvæmt hefðinni eru talin „karlmannleg" og þar sem ekki er lögð sérstök áhersla á að starfsfólk komi vel fyrir. Þetta eru niðurstöður nýrrar rannsóknar sem gerð var við viðskiptaháskólann í Denver í Bandaríkjunum.

Fallegar konur mega þannig búast við að mæta mismunu þegar þær sækja um störf sem bera titla í ætt við; rannsóknar- og þróunarstjóri, fjármálastjóri, vélaverkfræðingur eða verkstjóri byggingaframkvæmda. „Þegar sótt er um störf sem þessi getur það hreinlega verið skaðlegt fyrir konur að vera mjög aðlaðandi," hefur vefmiðillinn Science Daily eftir Stefanie Johnson, sem stýrði rannsókninni. „Í flestum öðrum störfum njóta fallegar konur forgangs. Það sama á ekki við um karlmenn, sem sýnir að það er enn tvöfalt siðferði í gangi þegar kemur að kyni umsækjenda."

Niðurstöður rannsóknarinnar benda til þess að engu máli skipti hvort karlmaður teljist myndarlegur eða ekki þegar kemur að því að ráða hann í vinnu. Þrátt fyrir þetta hefur fallegt fólk almennt mikið forskot að sögn Johnson. Það fær gjarnan hærri laun, frammistaða þeirra er metin betur, það fær fleiri atkvæði í almennum kosningum, betri meðferð hjá kviðdómendum í réttarsal og jafnvel greiðari aðgöngu að háskólum.

Tímartið Newsweek lét nýlega gera könnun meðal 202 ráðningarstjóra og 964 almennra þátttakenda og leiddi hún í ljós að útlit skipti alltaf máli á vinnustað og sérstaklega þegar kemur að konum. Þegar þátttakendur voru beðnir um að raða persónueinkennum á skalanum 1 til 10 eftir mikilvægi var útlit valið þriðji mikilvægasti eiginleikin, mikilvægari en menntun og skopskyn. Aðlaðandi útlit virðist hinsvegar aðeins koma konum vel þegar þær sækja um „kvenleg" störf, en er þeim fjötur um fót ef þær sækjast eftir „karlmannlegum" stöðum.

Í annarri könnun fengu þátttakendur í hendur lista með ólíkum störfum og annan með myndum af umsækendum, jafnmörgum körlum og konum, og þeir beðnir að para saman þá sem ættu best við hvaða starf. Algjörlega var litið fram hjá konum þegar valið var í störf öryggisstjóra, fangavarðar, bílstjóra og sölumanns í byggingarvöruverslun. Í öllum þessum störfum var útlit ekki sagt skipta máli.  Fallegar konur voru hins vegar gjarnan flokkaðar sem heppilegar mótttökudömur eða ritarar.

 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert