Ný baktería, sem er ónæm fyrir öflugustu sýklalyfjum, hefur fundist í breskum sjúkrahúsum. Breska ríkisútvarpið BBC hefur eftir læknum, að bakterían hafi fundist í sjúklingum, sem fóru til Indlands og Pakistans og gengust þar undir lýtaaðgerðir.
BBC segir að bakteríurnar framleiði ensím sem nefnist NDM-1. Um 50 tilfelli hafa verið skráð í Bretlandi til þessa en sérfræðingar óttast að bakterían muni breiðast út um heiminn. Segja sérfræðingarnir að auka þurfi eftirlit og framleiða ný lyf.
Að sögn BBC getur NDM-1 verið í mismunandi bakteríum, svo sem E-coli, og gerir þær ónæmar fyrir einum öflugustu sýklalyfjunum, sem nefnast carbapenems. Óttast sérfræðingar að NDM-1 berist í aðrar bakteríur, sem þegar eru ónæmar fyrir mörgum sýklalyfjum.
Þetta gæti valdið hættulegum sýkingum, sem myndu berast hratt milli fólks og yrði nánast ómögulegt að meðhöndla. Smit hefur þegar borist á milli sjúklinga í sjúkrahúsum í Bretlandi.
Að minnsta kosti ein NDM-1 sýking, sem sérfræðingar rannsökuðu, var ónæm fyrir öllum þekktum sýklalyfjum.
Svipaðar sýkingar hafa sést í Bandaríkjunum, Kanada, Ástralíu og Hollandi og sérfræðingar segja að NDM-1 gæti orðið að alheimsvandamáli.