Breskur mannfræðingur frá Cambridge háskóla leggur af stað á morgun til Grænlands, til að dvelja þar í heilt ár til að skrásetja tungumál Inughuit ættbálksins, áður en það deyr út.
Doktor Stephen Pax Leonard mun búa meðal Inughuit fólksins á norðurhluta Grænlands og ætlar að læra tungumál þeirra, Inuktun.
Þá ætlar hann að hljóðrita sögur og söngva ættbálksins og skrásetja þjóðtrú og hefðir fólksins.
Inughuit fólkið lifir eingöngu á því sem sjórinn færir því og notar aldagamlar aðferðir til veiðanna, á hundasleðum og kajökum.
Leonard lýsir þessu svæði Grænlands sem „menningarlegum kjarna Grænlands,“ í viðtali við fréttavef BBC.
Nú sé tungumál fólksins, og lífsstíll, að deyja út.
Vegna loftslagsbreytinga er ísinn að bráðna og þynnast og brátt verður ógerlegt fyrir Inughuit veiðimennina að ferðast á ísnum til veiða.
Tungumálið hefur aldrei verið skrásett að fullu og hyggst Leonard bjarga því við ef til þess komi að ættbálkurinn verði að færa sig um set og aðlagast annarri menningu svo tungumál þeirra deyi út.
Fyrst um sinn mun Leonard tala við gestgjafa sína á dönsku en vonast til að tala Inuktun reiprennandi innan skamms.