Stjörnufræðingar segja frá því í nýjasta hefti bandaríska fagtímaritsins Science að nýir landslagsþættir á tunglinu bendi til þess að það hafi skroppið saman. Um er að ræða misgengi sem skapaðist þegar kjarni tunglsins, sem áður var fljótandi, byrjaði að kólna sem olli því að yfirborðið skrapp saman og krumpaðist.
Misgengið, sem er um 100 metrar, er nýlegt í samanburði við aldur tunglsins, sem talið er að sé um 4.5 milljarða ára gamalt, en jarðhræringarnar munu hafa átt sér stað fyrir innan við milljarði ára.
Misgengi fannst fyrst nærri miðbaugi tunglsins á 8. áratugnum, með hjálp myndavéla um borð í geimförunum Apollo 15, 16 og 17. Nú hafa 14 ný misgengi fundist með nýrri myndavél Nasa og í ljós hefur komið að misgengið er einskorðað við ákveðið svæði heldur er að finna um allt yfirborð tunglsins sem gefur sterklega til kynna hvernig skorpan skrapp öll saman.
Stjörnufræðingurinn Tomas Watters hjá stjörnurannsóknarstöðinni í Smithsonian safninu í Washington leiddi rannsóknina.