Rannís og Rannsóknasjóður hafa hlotið 110 milljóna króna styrk úr Rannsóknaáætlun Evrópusambandsins. Féð verður nýtt til að fjármagna rannsóknastöðustyrki í samstarfi við stofnanir eða fyrirtæki hér á landi. Styrkirnir eru ætlaðir þeim sem hafa lokið doktorsprófi á síðastliðnum fimm árum.
Framlagið gerir sjóðnum kleift að veita fleiri nýdoktorum tækifæri til að hasla sér völl í rannsóknum auk þess sem styrkirnir munu stækka umtalsvert frá því sem nú er, samkvæmt tilkynningu frá Rannís.
Framlag Evrópusambandsins hljóðar upp á 700 þús. evrur, sem er um þriðjungur af því sem til úthlutunar verður á tveggja ára tímabili, en auglýst verður eftir umsóknum á árunum 2011 og 2012.
„ Ljóst er að framlag ESB verður mikil lyftistöng fyrir starfsumhverfi og atvinnumöguleika efnilegs vísindafólks hér Íslandi. Umsýsla verður í höndum Rannís," segir ennfremur í tilkynningu.