Danir ekki eins fjörugir og af er látið

Danska blaðið Jyllands-Posten segir, að það sé hrein goðsögn, að dönsk pör hafi að jafnaði kynmök tvisvar í viku. Ný rannsókn, sem gerð var fyrir blaðið, sýni fram á annað.

Blaðið segir, að rannsóknin sýni að barnauppeldi, starfsframi og dagsins önn dragi verulega úr kynlöngun og auki hættu á skilnaði. Hátt hlutfall fólks á aldrinum 36-45 ára sé óánægt með samlífið og um helmingur telur að kynlífið sé ófullnægjandi.  

Könnunin, sem Rambøll/Analyse Danmark gerði fyrir Jyllands-Posten, byggir á viðtölum við 664 Dani, sem allir eru í sambúð. 

Blaðið segir, að niðurstaðan sé sú, að undir 1% danskra para hafi kynmök daglega og 24% hafi kynmök í mesta lagi einu sinni í viku, 23% í mesta lagi einu sinni í mánuði og 16% sjaldan eða aldrei.  

Jyllands-Posten hefur eftir Michael Svarer, hjá Hagfræðistofnun Árósaháskóla, að óánægja aldurshópsins 36-45 ára tengist stöðu þessa fólks í lífinu. Á þessum aldri sé fólk oft að ná árangri í vinnu og eigi mjög annríkt. Samband paranna sé einnig farið að veðrast og verða hversdagslegra og barnauppeldið taki sinn toll. 

Prófessorinn segir, að rannsóknir bendi til þess að barneignir auki hættu á skilnaði. Líkurnar á skilnaði aukist um 25% við fyrsta barn og um 40% þegar annað barnið kemur í heiminn. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert