Í einkaleyfamál við Apple, Facebook og Google

Snekkjan Octopus við Reykjavík í sumar.
Snekkjan Octopus við Reykjavík í sumar. mbl.is/Júlíus

Félag í eigu Pauls Allens, annars stofnanda bandaríska hugbúnaðarfyrirtækisins Microsoft, hefur stefnt tæknifyrirtækjunum Apple, Facebook, Google, YouTube, Yahoo! og fleiri þekktum fyrirtækjum vegna meintra brota gegn einkaleyfum. Rannsóknarskip Allens, Octopus, var hér við land í sumar og kom hann einnig hingað.  

Fyirtækið Interval Licensing, sem er í eigu Allens, sakaði 11 fyrirtæki um brot gegn einkaleyfum á grunntækni í vefþróun, sem þróuð var á tíunda áratug síðustu aldar. 

David Postman, talsmaður Allens, segir að fyrirtækið Interval Reasearch hafi verið brautryðjandi í þróun nethagkerfisins. Málshöfðanirnar nú séu nauðsynlegar til að vernda fjárfestingu félaganna í nýsköpun.

Postman sagði, að málið snérist um tækni, sem þróuð var af fyrirtækinu Interval Research, en þeir Allen og David Liddle stofnuðu það árið 1992. 

Auk fyrrnefndra fyrirtækja eru netveitan AOL og netuppboðsfyrirtækið eBay nefnd í stefnunni, auk Netflix, sem leigir kvikmyndir á netinu og heildsölukeðjanna   Office Depot, OfficeMax, og Staples.

Talsmaður Facebook sagði að fyrirtækið teldi að þessi málshöfðun væri tilhæfulaus og henni yrði mætt af hörku.  

Google sagði að málshöfðunin væri dæmi um það þegar fólk reyndi að keppa í réttarsölum en ekki á markaðnum. 

Allen stofnaði Microsoft ásamt Bill Gates árið 1975. Þeir eru báðir meðal ríkustu manna heims. Einkaleyfin, sem málið snýst um, eru m.a. vegna tækni, sem gerir kleift að nota netvafra til að finna tilteknar upplýsingar og gera notendum viðvart um þær.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert