Hinn nýi Dreamliner, eða Boeing 787, er á leið til Keflavíkurflugvallar til prófana í hliðarvindi, að því er fréttavefurinn The News Tribune greinir frá. Flugvélin verður hér við reynsluflug í allt að vikutíma, að sögn Friðþórs Eydal upplýsingafulltrúa.
Í frétt The News Tribune segir m.a. að Keflavíkurflugvöllur sé þekktur fyrir sterka vinda. Flugbrautir liggja þar þvers og kruss svo hægt er að prófa þar lendingar í hliðarvindi, hvernig sem vindur blæs.
Þetta mun vera fyrsta alvöru reynsluflugferð Dreamliner út fyrir Bandaríkin og önnur ferð flugvélarinnar frá Bandaríkjunum. Flugvél af þessari tegund heimsótti fyrr í sumar flugsýninguna í Farnborough í Englandi. Sú heimsókn var fremur í kynningarskyni fyrir almenning og væntanlega kaupendur.
Blaðið segir að bæði Boeing og Airbus hafi notað Keflavíkurflugvöll til reynsluflugs í hliðarvindi. Þar voru m.a. reyndar bæði Boeing 777 og Airbus A380 flugvélar.
Sem kunnugt er hefur Icelandair tryggt sér kauprétt á Boeing 787 Dreamliner flugvélum.
Friðþór Eydal, upplýsingafulltrúi Flug-Kef ofh., staðfesti að flugvélin sé væntanleg hingað til lands í fyrramálið. Hann kvaðst eiga von á að flugvélin verði hér á landi við reynsluflug í allt að vikutíma. Meðan flugvélin verður hér er reiknað með sérstakri kynningu fyrir fjölmiðla.