Síðdegis í gær varð fréttavefurinn DV.is fyrir árás tölvuþrjóta sem nýttu sér veikleika í hugbúnaði á vefþjóni sem notaður var til að birta auglýsingar á vefnum. Árásin átti sér stað kl. 17:40 síðdegis í gær og virðist hafa átt upptök sín á vesturströnd Bandaríkjanna.
Í nótt virðist svo sem að veiru hafi verið komið fyrir á vefþjóni sem heldur utan um vef blaðsins og fóru þá um leið í gang viðvörunarbjöllur í varnarkerfum hýsingaraðila vefsins. Brugðist var skjótt við til að stöðva árás tölvuþrjótanna og strax í morgun var slökkt á vefþjóni þeim sem fyrir árásinni varð, samkvæmt tilkynningu frá DV.
Í kjölfarið var ákveðið að loka fréttavef DV í heild sinni á meðan að unnið er að því að lagfæra áðurnefnda veikleika. Þetta er eingöngu gert í öryggisskyni.
„Staðfest hefur verið að þrjótarnir komust ekki inn í tölvur ritstjórnar DV og þær hafa ekki orðið fyrir vírussmiti. Hins vegar er þeim, sem fóru inn á vefinn dv.is á milli kl.17:40 í gær og 11:50 í morgun og vilja gæta fyllstu varúðar vegna vírussmits, bent á að skanna tölvur sínar með aðstoð vírusvarna.
Hugsanlegt er að tölvuþrjótarnir hafi reynt að koma eins konar niðurhalsveiru fyrir á vefþjóni DV. Þeim notendum, sem eru með Windows XP, Windows Vista eða Mac OS og hafa ekki sett inn nýjustu öryggisuppfærslur, er ráðlagt að keyra veiruskanna til öryggis. Veiran hefur ekki áhrif á Windows 7," segir í tilkynningu.