Evrópsk lögregla til atlögu við ólöglegt niðurhal

Merki Pirate Bay.
Merki Pirate Bay.

Lögregla víðsvegar um Evrópu hefur gert húsleitir hjá tæplega fimmtíu veffyrirtækjum sem eru grunuð um að bjóða upp á ólöglegt niðurhal. Meðal annars hefur verið leitað hjá PRQ í Svíþjóð en talið er að fyrirtækið visti Pirate Bay vefinn og WikiLeaks. Er þetta ein umfangsmesta aðgerð sem lögregla í Evrópu hefur farið gegn ólöglegu niðurhali.

Alls var farið inn í 48 fyrirtæki víðsvegar um Evrópu.  Þar af voru sjö í Svíþjóð en aðgerðunum var stjórnað af lögreglu í Belgíu og Svíþjóð sem segir þær niðurstaða tveggja ára rannsóknar á starfsemi þessara fyrirtækja.

BBC hefur eftir sænska saksóknaraembættinu að rannsóknin beindist gegn neti sem nefnist „The Scene" og býður upp á niðurhal á kvikmyndum áður en þær koma á dvd mynddiska.

Búið er að handtaka fjóra í tengslum við málið í Svíþjóð auk þess sem lagt hefur verið hald á fjölda netþjóna og tölva. Segir lögreglan að aðgerðin tengist á engan hátt WikiLeaks. 

Sænskur dómstóll fann í apríl í fyrra fjóra forsvarsmenn Pirate Bay seka um að hvetja til höfundarréttarlagabrota með því að reka netsíðuna. Þeir voru dæmdir í árs skilorðsbundið fangelsi og til að greiða 30 milljónir sænskra króna í bætur til kvikmynda- og tónlistarframleiðenda.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert