Sókn Google á farsímamarkaði færist stöðugt í aukana. Android stýrikerfið frá Google, sem hannað er fyrir farsíma, nýtur sívaxandi vinsælda á kostnað stýrikerfa frá Apple, RIM, Palm og Microsoft.
Samkvæmt nýrri bandarískri könnun eiga 53,4 milljónir bandaríkjamanna snjallsíma. Það er aukning um 11 af hundraði frá fyrri ársfjórðungi.
Mest aukning var á sölu síma með Android stýrikerfi frá Google. Google jók þannig markaðshlutdeild sína úr 12 prósentum í 17 prósent.
Markaðshlutdeild Apple, RIM og Microsoft skertist en Palm jók þó markaðshlutdeild sína um 4,9 prósent.
Apple framleiðir iPhone símana og RIM framleiðir BlackBerry.
Samkvæmt könnuninni nota um tveir þriðju farsímanotenda í Bandaríkjunum símana til að senda sms eða tölvupóst og um þriðjungur notar þá til að vafra um netið. 31,4 prósent notenda hlaða niður aukahlutum á símann (applications) og um 21,8 prósent nota símana til að fara á samskipta- og bloggsíður.