Bandarískir læknar hafa í fyrsta skipti framkvæmd skurðaðgerð þar sem ung kona, sem þjáðist af sjaldgæfu beinkrabbameini, var í reynd hlutuð í sundur, krabbameinsvefurinn fjarlægður og hún síðan sett saman á ný.
Fjallað hefur verið um málið í bandarískum fjölmiðlum. Koman heitir Janis Ollson og er frá Manitoba í Kanada. Fram kemur í blaðinu Winnipeg Free Press, að Ollson hafi fyrir þremur árum fyrst gengist undir aðgerð í 20 stundir þar sem 12 sérfræðingar fjarlægðu annan fót hennar, hluta af mjaðmagrindinni og neðri hluta hryggjarins. Eftir viku gekkst hún undir aðra aðgerð þar sem hún var „sett saman" á ný. Sú aðgerð tók 8 stundir, þegar bein var fest við hrygginn með heftum og skrúfum.
Blaðið segir að þrír hafi gengist undir svipaða aðgerð síðan en aðeins einn sjúklingur lifði af, ung kona í Ohio.
Ollson greindist með beinkrabbameinið fyrir þremur árum þegar hún var 31 árs. Hún hafði lengi þjáðst af bakverkjum og leitaði til læknis þegar hún gekk með annað barn sitt en læknirinn sagði að verkirnir tengdust meðgöngunni. Þeim linnti hins vegar ekki eftir að barnið fæddist og í kjölfarið greindist Ollson með sjaldgæfa tegund af beinkrabbameini í vef- og stoðkerfinu, sem hafði grafið um sig í neðsta hluta hryggjarsúlunnar, öðrum lærleggnum, mjaðmagrindinni og hluta af vöðvunum.
Sjúkdómurinn var það langt genginn að ljóst þótti að geislameðferð væri gagnslaus. Eina ráðið væri að fjarlægja þá líkamshluta þar sem krabbameinið var. Vandamálið var að læknarnir vissu ekki almennilega hvort hægt yrði að setja líkamann saman aftur.
„Ég fékk algert áfall og minnstu munaði að ég kastaði upp," sagði Ollsson við kanadíska blaðið.
Mayo læknastöðin í Minnesota í Bandaríkjunum hafði þá samband við Ollson og bauðst til að reyna að gera þessa aðgerð ef henni tækist að útvega 20 þúsund dali, um 2,2 milljónir króna. Þá hafði slík aðgerð aldrei verið reynd.
Aðgerðin tókst hins vegar og nú er Ollson laus við krabbameinið þótt hætta sé á að það kunni að taka sig upp aftur. Hún hefur fengið gervifót og notar fjórhjól og snjóbíl til að komast leiðar sinnar úti.