Tveir vísindamenn, sem starfa við Manchesterháskóla, hljóta nóbelsverðlaunin í eðlisfræði í ár fyrir rannsóknir á graphene, kolefnissambandi sem leiðir rafmagn.
Vísindamennirnir heita Andre Geim, 52 ára hollenskur ríkisborgari, og Konstantin Novoselov, 36 ára sem er með breskan og rússneskan ríkisborgararétt.
Í tilkynningu segir Nóbelsnefndin, að graphene sé tegund af kolefni en jafnframt nýtt efni. Það sé afar þunnt, eða aðeins ein frumeind, en þeir Geim og Novoselov hafi sýnt fram á að efnið hafi merkilega eiginleika sem tengist skammtafræði.
Þetta sé ekki aðeins þynnsta efni sem þekkt er heldur einnig það sterkasta. Það leiði bæði rafmagn og hita, sé nánast gegnsætt en jafnframt svo þétt að ekki einu sinni vetnissameind, minnsta þekkta sameindin, geti smogið gegnum það.
Sökum þess að efnið er nánast gegnsætt en jafnframt afar góður leiðari, sé hægt að nota það til að framleiða gegnsæja snertiskjái og jafnvel sólarrafhlöður.