Ekkert spendýr hefur ferðast víðar um jörðina svo vitað sé en hnúfubakur nokkur, sem nýlega uppgötvaðist að hefur synt a.m.k. 9.800 kílómetra leið frá Atlantshafi til Indlandshafs í leit að maka, að sögn sjávarlíffræðinga.
Hnúfubakurinn, sem er kvendýr, náðist fyrst á mynd með hópi hvala undan suðausturströnd Brasilíu þann 7. ágúst 1999. Fyrir hreina tilviljun var aftur tekin mynd af henni rúmum tveimur árum síðar, af hvalaskoðunarhóp undan ströndum Madagaskar þann 21. september 2001. Unnt var að ganga úr skugga um að um sama hval væri að ræða vegna sérstakrar lögunar og bletta á sporðinum.
„Þetta er lengsta skrásetta ferðalag nokkurs spendýrs, um 400 kílómetrum lengra en lengsti búferlaflutningur sem vitað var til fram til þessa," hefur AFP eftir vísindamanninum Peter Stevic við College of the Atlantic í Bar Harbor í Maine í Bandaríkjunum.
Ferðalagið kvendýrsins þykir ekki aðeins markvert vegna langra vegalengda heldur einnig vegna þess að það vekur spennandi spurningar um mökunarferli hnúfubaka, en lítið er vitað um lífsmynstur tegundarinnar. Fram til þessa var talið að aðeins karldýr væru líkleg til að ferðast svo langar vegalengdir í leit að maka. Hnúfubakar eru frægir fyrir að synda langar vegalengdir en hingað til hefur verið talið að ferðir þeirra lægju fyrst og fremst á milli norður- og suðurhvels jarðar, úr Suður-Atlantshafi í Norður-Atlantshaf.
Þessi nýjasta uppgötvun bendir hinsvegar til þess að hnúfubakar syndi líka úr austri í vestur til að makast. Frekari rannsókna er þó þörf til að sannreyna að ekki sé um einstakt tilfelli að ræða. Ef í ljós kemur að fleiri hnúfubakar hegði sér með sama hætti gæti það hinsvegar leitt til þess að endurskoða þurfi kenningar um genamengi hvalsins sem í kjölfarið gæti haft áhrif á verndun hans. Um tíma voru hnúfubakar í útrýmingarhættu vegna ofveiða en stofninn er óðum að ná sér á strik á nýjan leik.
Rannsóknin birtist í breska fagtímaritinu Biology Letters.