Þúsundum köngulóaunga, sem aldar voru í eldhúsi í Englandi, verður í dag sleppt lausum út í náttúruna í tilraun til að lífga við köngulóategund í útrýmingarhættu. Vistfræðingurinn Helen Smith ól um 3.000 köngulær í eldhúsinu sínu og ætlar að sleppa þeim á náttúruverndarsvæðinu Castle Marshes í Suffolk í austurhluta Englands.
Köngulóategundin, sem nefnist „fen raft" eru taldar í útrýmingarhættu í Bretlandi og finnast aðeins á tveimur stöðum í Englandi og einum í Wales. Köngulærnar eru nokkuð stórar, þær stærstu sem finnast á Bretlandseyjum, en búkur kvendýrsins getur orðið allt að 23 millímetra langur, með auðkennandi hvítum eða gulum röndum.
Köngulóaungarnir voru aldir í aðskildum hylkjum til að koma í veg fyrir að þeir réðust hver á annan, og fóðraðir með ávaxtaflugum. Smith segir það hafa tekið verulega á að ala þá. „Á tímabili vakti ég til klukkan tvö á nóttunni sjö daga vikunnar við að mata hungraðar köngulær á flugum í eldhúsinu mínu," hefur AFP eftir henni. „Ég er mjög spennt og hlakka til að sjá þær standa á eigin fótum - og til að fá eldhúsið mitt aftur."