Meira en tuttugu milljónir notenda Opera Mini vafrans leggja nú leið sína um Ísland á vafri sínu - án þess að hafa hugmynd um það! Gagnaver Opera Software á Íslandi hóf starfsemi í dag. Þá var umferð netnotenda Opera Mini í Evrópu, Afríku og Asíu beint um Thor Data Center sem er hér á landi.
Opera Mini vafrinn er notaður í farsímum og vasatölvum. Opera Software segir að notendur vafrans hafi ekki orðið þess varir þegar umferðinni var beint um gagnaverið á Íslandi.
Opera Software segir að Opera Mini sé vinsælasti vafrinn í smátölvum og farsímum. Notendur Opera Mini eru orðnir rúmlega 71 milljón í hverjum mánuði. Vafrinn styðst við netþjón við vinnsluna. Það gerir að verkum að Netið verður hraðara og netnotkunin ódýrari en ella.
Í tilkynningu Opera Software segir að stöðugt framboð af grænni orku og svalinn á Íslandi valdi því að ákjósanlegt sé að staðsetja hér gagnaver. Jon von Tetzchner, annar stofnenda Opera Software, segir að margt styðji þessa ákvörðun.
„Umhverfið græðir þegar við skiptum í græna orkugjafa og kæliaðferðir,“ er haft eftir Jon. „Blanda hreinnar orku, hæfileikaríkra upplýsingatæknimanna og hraðar nettengingar við alþjóðlegar netmiðstöðvar gerir okkur kleift að veita notendum Opera Mini í Evrópu, Asíu og Afríku bestu þjónustu.“
Þjónustan við notendur Opera Mini er fyrsta stórverkefnið sem Thor Data Center gagnaverið tekur að sér. Jón Viggó Gunnarsson, forstjóri og einn stofnenda Thor Data Center, segir að gagnaverið hafi á að skipa hæfileikaríku og reyndu starfsfólki. Hann kveðst hlakka til að auka viðskipti gagnaversins við Evrópu og Bandaríkin.
Hægt er að hlaða Opera Mini vafranum niður í meira en 3.000 gerðir farsíma.