Tekist er á um það fyrir hæstarétti Bandaríkjanna hvort að Kaliforníuríki hafi verið heimilt að banna sölu eða útleigu á ofbeldisfullum tölvuleikjum til barna. Gagnrýnendur bannsins segja það setja skorður við tjáningarfrelsinu.
Banninu, sem sett var árið 2005, var hafnað af millidómsstigum, og er sagt vera prófmál um málfrelsisákvæði fyrsta viðauka bandarísku stjórnarskrárinnar. Arnold Schwarzenegger,ríkisstjóri Kaliforníu áfrýjaði þeim úrskurði til hæstaréttar.
Bannið fól í sér að hægt væri að sekta söluaðila tölvuleikja um allt að 1.000 dollara fyrir að selja eða leigja börnum undir 18 ára aldri tölvuleiki sem væri merktir sem ofbeldisfullir.
Í lögunum var ofbeldisfullur tölvuleikur skilgreindur sem leikur sem innihéldi „morð, líkamsmeiðingar, aflimanir, kynferðisárás á manneskju“. Bannið hefði þó ekki stöðvað foreldra í að kaupa leiki handa börnum sínum.
Sagði hæstaréttardómarinn Antonin Scalia að bannið væri tilraun til þess að búa til nýtt svæði þar sem hægt væri að setja tjáningarfrelsi skorður vegna ofbeldis. „Hvað er næst? Áfengisdrykkja? Reykingar? Af hverju er í lagi að banna á þessum forsendum en ekki öðrum?“ sagði hann.
Annar dómari, Samuel Alito spurði lögfræðinga tölvuleikjaiðnaðarins hvort ríkin ættu ekki að hafa neinn rétt til þess að takmarka aðgang barna að ofbeldisfyllsta efninu.
Svaraði lögfræðingurinn því til að fulltrúar Kaliforníuríkis hefðu ekki sýnt fram á neitt vandamál sem kallaði á slíkt bann. Sagði hann engar vísindalegar rannsóknir benda til þess að það skaðaði börn að sýna þeim ofbeldisfull atriði líkt og sumir tölvuleikir innihalda.
Andstæðingar bannsins halda því fram að það setji tjáningarfrelsinu skorður og það sé ónauðsynlegt þar sem flestir tölvuleikir hafi þegar merkingar um hvaða aldurshópum þeir séu ætlaðir.
Kaliforníuríki vitnar til úrskurðar hæstaréttar frá 1968 þegar hann lagði bann við sölu á tímaritum með myndum af berum konum til barna undir lögaldri sem fordæmi í málinu. Segja lögfræðingar þess að hér sé á sama hátt verið að reyna að vernda börn.
Fylgjendur bannsins benda á að til séu læknisfræðilegar- og félagsfræðilegar rannsóknir sem sýni að fylgni sé á milli ofbeldisfullra tölvuleikja annars vegar og árásargjarnra hugsana, andfélagslegrar hegðunar og firringu gagnvart ofbeldi hins vegar.
Nokkur önnur ríki hafa stutt bannið í Kaliforníu eða reynt að setja svipuð lög.