Samgöngu- og sveitastjórnarráðuneytið hefur nú til umsagnar drög að frumvarpi til laga um landslénið .is og önnur höfuðlén sem sérstaka skírskotun hafa til Íslands. Þar er lagt til að íslenska ríkið hafi ákvörðunarrétt yfir þeim.
Á vef ráðuneytisins segir að meginmarkmiðið með frumvarpsdrögunum sé að stuðla að gæðum, hagkvæmni og framþróun á sviði lénaumsýslu með því að setja lagaramma um lénaskráningar á Íslandi sem tryggi öryggi, skilvirkni og gagnsæi varðandi umsýslu með lén sem tilheyra landsléninu .is.
Markmið þess séu aukinheldur að tryggja að um skráningu léna gildi skýrar reglur þar sem gætt er að hagsmunum almennings og að jafnræði aðila um aðgang sé tryggt. Auk þess má segja að tilgangur laga um landslénið .is sé að vernda ímynd Íslands, þ.e. að tryggja að .is sé gæðamerki.
Þá segir að í frumvarpsdrögunum sé lagt til að lénaumsýslu á Íslandi verði settur lagarammi í fyrsta sinn.
Þá leggja frumvarpsdrögin til að íslenska ríkið hafi ákvörðunarrétt yfir landsléninu .is og öðrum höfuðlénum sem sérstaka skírskotun hafi til Íslands. Jafnframt sé kveðið á um að stjórnvöld fari með yfirstjórn höfuðléna með sérstaka skírskotun til Íslands og að starfsemi skráningarstofu, sem annist muni skráningar léna undir .is verði háð starfsleyfi og eftirliti Póst- og fjarskiptastofnunar.