Hertar reglur um innihald barnamáltíða

Barnamáltíðir eru vinsælar á McDonald's
Barnamáltíðir eru vinsælar á McDonald's

Borgaryfirvöld í San Francisco hafa samþykkt bann við því að skyndibitastaðir gefi leikföng með barnamáltíðum sem ekki uppfylla skilyrði sem sett eru fyrir slíkum máltíðum. Er borgin sú fyrsta af stórborgum Bandaríkjanna sem samþykkir slíkar reglur.

Lögin taka gildi í desember árið 2011 en samkvæmt þeim verða barnamáltíðir, þar sem leikföng fylgja með, að innihalda minna en 600 hitaeiningar og 640 mg af salti. Eins mega einungis 35% hitaeininga koma úr fitu. Lögin voru samþykkt með átta atkvæðum gegn þremur í borgarráði.

Eins taka lögin til magns mettaðrar fitu og transfitusýru í barnamáltíðum og gerð krafa um að ávextir eða grænmeti fylgi hverri slíkri barnamáltíð.

„Það sem börnin okkar borða gerir þau veik og mikið af því er skyndibiti," hefur BBC eftir borgarráðsmanni. Það sé markmið borgaryfirvalda að vinna með veitingahúsum og skyndibitastöðum að því að bjóða upp á heilsusamlegri kosti á matseðli þeirra.

Heilbrigðisyfirvöld og baráttufólk fyrir heilsu fagna lögunum og segja þau einn lið í því að berjast gegn offitu barna í Bandaríkjunum.

Svipaðar reglur voru settar í Santa Clara sýslu í Kaliforníu fyrir hálfu ári síðan.

Skyndibitakeðjan McDonald's, sem gagnrýndi ákvörðun borgaryfirvalda í San Francisco, segir að barnamáltíðir keðjunnar standist kröfur um næringarinnihald máltíða.

Á árinu 2006 eyddu skyndibitastaðir 161 milljón Bandaríkjadala, tæpum átján milljörðum króna, í auglýsingar sem beint var að börnum yngri en tólf ára.

Virði leikfanga sem var dreift með barnamáltíðum var það sama ár metið á 360 milljónir dala, 40,2 milljarða króna, samkvæmt upplýsingum BBC. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka