Humar með sömu erfðaefni á aðskildum veiðisvæðum

Frá humarvinnslu í Þorlákshöfn.
Frá humarvinnslu í Þorlákshöfn. mbl.is/Helgi Bjarnason

Erfðasýni sem tekin voru af humri frá aðskildum veiðisvæðum við Suðvestur- og Suðausturland hafa sýnt að enginn afgerandi munur virðist vera í erfðabyggingu tegundarinnar frá einu svæði til annars þó að allt upp í 300 sjómílna fjarlægð sé á milli svæða. Þetta kemur fram í frétt á vef Hafrannsóknarstofnunar.

Nýlega birtust í vísindariti Alþjóðahafrannsóknaráðsins niðurstöður erfðarannsókna á humri sem sérfræðingar Hafrannsóknastofnunarinnar unnu að í samstarfi við Matís og styrktar af verkefnasjóði sjávarútvegsins. 

Merkingar hafa fyrir löngu sýnt fram á að humar er mjög staðbundin tegund sem gengur ekki frá einu veiðisvæði/hrygningarsvæði til annars. Einnig hafa sveiflur í aflabrögðum, humarstærð og nýliðun verið ólíkar í gegnum tíðina, t.d. á vestustu og austustu veiðisvæðum og var það hvatinn að þessari rannsókn.

Niðurstöður erfðafræðirannsóknanna gefa því eindregið til kynna að á 4-8 vikna lirfustigi berist humarlirfur milli svæða með straumum í efri lögum sjávar og taki sér síðan bólfestu í holum á leirbotni þegar lirfustigi lýkur. Ennfremur er ljóst að líffræðilegir þættir svo sem nýliðun, humarstærð og afli á sóknareiningu munu áfram skipa þýðingarmikinn sess við stjórnun veiðanna.

Sjá nánar hér

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert