Búist er við því að Facebook muni svipta hulunni af nýrri póstþjónustu sem er sögð vera sett til höfuðs Gmail-þjónustu Google, Yahoo og Hotmail. Í dag verður athöfn í San Francisco í Bandaríkjunum, þar sem menn eiga von á þessari tilkynningu.
Á vef breska ríkisútvarpsins segir að óstaðfestar fregnir hermi að Facebook muni kynna sitt eigið tölvupóstfang, þ.e. @facebook.com, eða það muni kynna sérstakt tölvupóstkerfi á netinu. Notendur Facebook eru nú um 500 milljón talsins.
Fram kemur að samkeppni Google og Facebook hafi færst í aukana að undanförnu, en fyrirtækin hafi staðið í miklum deilum.
Google hefur t.d. ekki gefið leyfi fyrir því að þeir sem noti Gmail-þjónustuna geti flutt alla tengiliði sína yfir á Facebook-síðuna sína. Google segist hafa bannað þetta vegna þess að stjórnendur Facebook leyfi ekki að upplýsingar um tengiliði og vini séu fluttar annað.
Facebook hefur hins vegar leyst þetta með því að gera notendum sínum að vista upplýsingar um tengiliði í tölvunni áður en þeir flytja þá yfir á Facebook-síðuna sína.
Í umfjöllun á tæknibloggsíðunni Techcrunch er nýja Facebook-verkefnið, sem gengur undir dulnefninu Project Titan, kallað „Gmail-killer“. Þar segir að Facebook sé tilbúið að hleypa fullmótaðri nettölvupóstþjónustu af stokkunum.