Íslenskt sprotafyrirtæki að gera það gott

ReMake fékk Gulleggið í vor
ReMake fékk Gulleggið í vor

Íslenska sprotafyrirtækið ReMake Electric er komið í úrslit í alþjóðlegri keppni sprotafyrirtækja um grænar hátæknilausnir, Cleantech Open Global Ideas Competition.

Keppnin er sú stærsta sinnar tegundar í heiminum og mun Hilmir Ingi Jónsson, framkvæmdastjóri Remake kynna viðskiptahugmynd fyrirtækisins í úrslitum keppninnar sem fer fram í Kísildalnum í Kaliforníu þann 17. nóvember, segir í tilkynningu.

Þar munu um 2500 fjárfestar, frumkvöðlar og samstarfsaðilar keppninnar kjósa um sigurvegara í kjölfar þess að Hilmir ásamt öðrum keppendum frá yfir 20 löndum munu kynna fyrirtæki sitt. Samhliða keppninni sjálfri var ReMake boðið að taka þátt í vinnusmiðju efnilegra sprotafyrirtækja á sínu sviði. Úrslit keppninnar eru jafnframt hluti af Alþjóðlegu athafnavikunni sem fer fram í næstu viku um allan heim.

 ReMake var eitt fimm sprotafyrirtækja á Norðurlöndunum sem valið var til að keppa til úrslita í Global Ideas keppninni í kjölfar þátttöku í fyrsta hluta sambærilegrar norrænnar frumkvöðlakeppni, Nordic Cleantech Open.

Ásamt ReMake frá Íslandi voru frá Norðurlöndunum valin fyrirtækin Ecospark frá Svíþjóð, Abeo frá Danmörku, PontoonPower frá Noregi og ZenRobotics frá Finnlandi. Norræna frumkvöðlakeppnin sem nú er haldin í fyrsta sinn er þó rétt að hefjast og mun ljúka í Apríl á næsta ári. Nordic Cleantech Open var stofnuð af Innovit á Íslandi, Venturecup í Danmörku og Cleantech Scandinavia í Svíþjóð auk fjölmargra samstarfsaðila frá öllum norðurlöndunum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert