Sextíu borgarstjórar munu í Mexíkóborg um helgina skrifa undir samkomulag um að draga úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda. Verður skjalið afhent loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna sem hefst í Cancún í Mexíkó í lok þessa mánaðar.
„Í fyrsta skipti munum við skrifa undir samning til þess að setja takmörk á útblástur út í andrúmsloftið, nokkuð sem mörg mikilvægustu lönd í heimi hafa neitað að gera,“ sagði Marcelo Ebrard, borgarstjóri Mexíkóborgar.
París, Seúl, Dakar, Montreal, Porto Alegre og Stuttgart eru á meðal borganna sem taka þátt í samkomulaginu.
Mexíkóborg hýsir um helgina alþjóðlega ráðstefnu þar sem saman verða komnir yfir þúsund fulltrúar frá nítíu löndum. Skrifað verður undir samkomulagið á sunnudag og verður það m.a. birt á Netinu.