Frönsk stjórnvöld fóru fram á það í dag að lyfjaeftirlit landsins útskýri hvernig standi á því að talið sé að lyf sem sykursjúkum var gefið hafi kostað fimm hundruð manns lífið áður en það var bannað.
Lyfjaeftirlit Frakklands, Agence Francaise de Securite Sanitaire des Produits de Sante, (AFSSAPS), telur að Mediator, lyf sem fólk í yfirþyngd með sykursýki, tók til að draga úr matarlyst, hafi kostað fimm hundruð manns lífið þau 33 ár sem lyfið var á markaði.
Heilbrigðisráðherra Frakklands, Xavier Bertrand, ósakði eftir skýringum á þessu hjá yfirmanni AFSSAPS í morgun.
Mediator var selt í Frakklandi af lyfjafyrirtækinu Servier frá árinu 1976 þar til það var bannað í nóvember 2009.
Boðað hefur verið til blaðamannafundar vegna málsins síðar í dag. Irene Frachon, læknir sem unnið hefur rannsókn á verkun Mediator segir að lyfið sé stórslys. Heilbrigðisyfirvöld hafi gripið allt of seint inn þrátt fyrir að hafa verið upplýst um hversu alvarleg áhrif lyfið getur haft á hjartalokurnar, segir hún í viðtali við AFP fréttastofuna.