Fréttaskýring: Yfir 350 Íslendingar eiga rætur að rekja til indíána

Íslendingar eiga ekki einvörðu rætur sínar að rekja til Norðurlandanna …
Íslendingar eiga ekki einvörðu rætur sínar að rekja til Norðurlandanna og Bretlandseyja. mbl.is/G.Rúnar

Að minnsta kosti 350 Íslendingar - líklega fleiri - bera í sér hvatberaarfgerðir sem eiga hugsanlega rætur að rekja til frumbyggja Ameríku. „Þetta er spennandi fyrir þá sem bera þessa arfgerð,“ segir Agnar Helgason, mannfræðingur hjá Íslenskri erfðagreiningu og Háskóla Íslands.

Sigríður Sunna Ebenesersdóttir, rannsakaði þetta í meistaraverkefni sínu í mannfræði við HÍ. Agnar var leiðbeinandi hennar og var rannsóknin unnin í samvinnu við Íslenska erfðagreiningu. Hún hefur vakið mikla athygli og hefur ritgerðin verið birt í vísindaritinu American journal of physical anthropology. Þá mun tímaritið National Geographic fjalla um málið.

Agnar segir í samtali við mbl.is að það sé ekki hægt að slá því föstu að arfgerðirnar komi frá frumbyggjum Ameríku. Hins vegar sé hægt að draga þessa ályktun miðað við fyrirliggjandi gögn. Reynist þetta rétt þá sé þetta merkileg saga, en það megi álykta að ættmóðirin hafi komið til Íslands í kringum 1000.

Byggir á eldri rannsókn

Rannsókn Sigríðar Sunnu byggir á niðurstöðum fyrstu rannsóknar á uppruna Íslendinga, sem Agnar vann og birtist hún árið 2000. Agnar segir að niðurstaða síðarnefndu rannsóknarinnar hafi verið sú að við landnám hafi megnið af konunum komið til Íslands frá Bretlandseyjum og flestir karlar frá Skandinavíu.

Agnar segir að í þeirri rannsókn hafi fundist tvær hvatberaarfgerðir - en hvatbera DNA erfist eingöngu frá móður til afkvæma - sem hafi greinilega ekki verið af evrópskum uppruna.

„Þær báru stökkbreytingar sem gáfu til kynna að þær voru greinilega ættaðar frá, annað hvort frumbyggjum Ameríku eða frá Austur-Asíu. En flest afbrigði af þessari gerð eru frá frumbyggjum Ameríku,“ segir hann.

Agnar bendir á að hægt sé að rekja hvatberaerfðaefni aftur í tímann í gegnum óbrotnar mæðrakeðjur og tengja fólk saman. Þeir sem beri sama hvatberaerfðaefni séu líklega náskyldir í gegnum beinan kvenlegg.

Vakti ekki mikla athygli í fyrstu

Í fyrstu taldi hann að hvatberaarfgerðirnar væru fremur nýjar af nálinni, eða um nokkurra áratuga gamlar. Hann hafi því ekki sýnt þessu mikinn áhuga í fyrstu en við áframhaldandi rannsóknir hafi fleiri slík afbrigði fundist og áhuginn því aukist. Þetta rannsakaði Sigríður Sunna í meistararitgerð sinni.

„Það eru tvær meginspurningar. Ein var sú, hversu lengi hefur þessi sérstæði kvenleggur verið á Íslandi. Hin spurningin er, hvaðan kom hann? Þ.e. hvar finnum við skyldustu afbrigði af sama meiði,“ segir Agnar.

Var ættfræðigrunnur deCODE nýttur til að skoða aldurinn á Íslandi. Komið hafi í ljós að það séu a.m.k. fjórir kvenleggir, eða fjórir ættbálkar kvenna í beinan kvenlegg, sem beri þetta afbrigði. Elstu ættmæður þeirra, skv. ættfræðigrunninum, hafi verið fæddar í kringum 1700 og gefið af sér þennan ættlegg sem sé af framandi uppruna.

Hins vegar vanti upplýsingar um mæður þessara fjögurra kvenna, sem séu væntanlega skyldar sjálfar innbyrðis. „En spurningin er sú, hvenær finnum við nýlegustu formóður þessara fjögurra kvenna. Hversu langt aftur í tímann er það,“ spyr Agnar.

Ættmóðirin hafi komið til Íslands í kringum 1000

Þá segir hann að í ljósi þess að smá munur hafi fundist á milli afbrigða þessarar hvatberaafgerðar í einum ættlegg miðað við hina þrjá, þá hafi þau ályktað sem svo að hin endanlega ættmóðir á Íslandi hljóti að vera töluvert eldri. „Og jafnvel nokkur hundruð ára eldri heldur þessar sem við finnum í ættfræðigrunninum. Þannig að við ímyndum okkur að hún gæti hafa komið til Íslands í kringum 1000.“

Agnar tekur hins vegar fram að það sé ekki hægt að staðhæfa þetta. Það sé t.d. mögulegt að konurnar fjórar, sem fundust í ættfræðigrunninum, hafi verið systur. „Við vitum það ekki, af því það vantar upplýsingar um foreldra þeirra. En það er lang líklegast, miðað við þau gögn sem liggja fyrir, að formóðir þeirra sé töluvert eldri en það.“

Uppruninn kom á óvart

Agnar segir að það hafi komið þeim mjög á óvart hvaðan þetta komi. Í fyrstu hafi þau talið að þetta hefði annað hvort verið afbrigði sem finnst í frumbyggjum Ameríku eða afbrigði sem finnst í Austur-Asíu.

Reyndin sé sú að íslenska afbrigðið sé frábrugðið þeim báðum. Því sé ekki hægt að segja með afgerandi hætti hvaðan þetta komi.

„Ráðgátan hefur stækkað ef eitthvað er. En svarið liggur í því, að um leið og það finnst afbrigði, sem er greinilega skylt þessum íslenska kvenlegg, einhversstaðar annarsstaðar í heiminum þá fáum við svar við því hvaðan þessi kvenleggur kom.“

Hins vegar sé hægt að álykta, miðað við fyrirliggjandi gögn, að lang flestir kvenleggir, sem séu skyldir þeim sem finnist hér á Íslandi, finnist í frumbyggjum Ameríku. „Byggt á því þá myndi maður álykta að það væri líklegasti uppruninn.

Þörf á frekari rannsóknum

„Við höfum leið fyrir kvenlegg til þess að berast frá Ameríku til Íslands fyrir tíma Kólumbusar. Því þetta hefur væntanlega verið á Íslandi það lengi að þetta var komið til Íslands áður en Kólumbus enduruppgötvaði Ameríku. Og við höfum leið og það eru þá siglingar víkinga til Ameríku í kringum árið 1000.“

Agnar ítrekar að þetta sé ekki hægt að staðhæfa, en þetta sé hins vegar líklegasta tilgátan miðað við þau gögn sem liggi fyrir. Þörf sé á frekari rannsóknum til að fá endanlega úr þessu skorið. „Um leið og sambærileg arfgerð finnst annarsstaðar í heiminum þá erum við, held ég, komin a.m.k.  með drög að svari.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert