Evrópskir stjörnufræðingar hafa uppgötvað reikistjörnu á braut um stjörnu sem hefur borist inn í Vetrarbrautina úr öðru stjörnukerfi.
Fram kemur á Stjörnufræðivefnum, að reikistjarnan er gasrisi, ekki ósvipaður Júpíter, en harla óvenjuleg því hún hringsólar um stjörnu sem nálgast endalok ævi sinnar. Stjarnan gæti verið í þann mund að gleypa reikistjörnuna. Segir vefurinn, að uppgötvunin veiti því mögulega innsýn í örlög okkar eigin sólkerfis í fjarlægri framtíð.
Undanfarin 15 ár hafa stjarnvísindamenn fundið nærri 500 reikistjörnur á braut um stjörnur í næsta nágrenni við sólina okkar en aldrei hefur nein fundist utan Vetrarbrautarinnar. Nú hefur aftur á móti fundist reikistjarna á braut um stjörnu í sem á rætur að rekja í annarri vetrarbraut.
Stjarnan tilheyrir hópi stjarna, svonefndum Helmi straumi, sem upphaflega tilheyrðu dvergvetrarbraut sem Vetrarbrautin gleypti fyrir um sex til níu milljörðum ára.
Niðurstöðurnar eru kynntar í tímaritinu Science Express.