Hleðslutæki sem getur hlaðið allar gerðir farsíma framtíðarinnar er væntanlegt í verslanir eftir fáeina mánuði, að sögn Berlingske Tidende. Nýlega var samþykktur staðall fyrir hleðslutæki farsíma. Þegar á vormánuðum geta framleiðendur sett nýja samræmda hleðslutækið á markað.
Hleðslutækið mun passa fyrir allar gerðir farsíma sem framleiddar verða hér eftir, skiptir þá tegund og gerð engu máli, að sögn dönsku staðlastofnunarinnar Dansk Standard.
Sérfræðingar frá hinum ýmsum símaframleiðendum í Evrópu komu sér saman um nýja hleðslutækjastaðalinn. Evrópska staðlastofnunin Cenelec hefur samþykkt staðalinn. Þetta þykir til mikilla bóta fyrir símnotendur og ætti að koma í veg fyrir örvæntingarfullar hjálparbeiðnir rafmagnslausra símaeigenda.
„Á einhver hleðslutæki fyrir Nokia, þennan með mjóa tenginu?“ Eða „Ég þarf að hlaða Sony-Ericson, svona með breiða tenginu þið vitið. Er einhver með hleðslutæki.“ Skilaboð sem þessi ættu því að heyra sögunni til innan tíðar.