Íslensk fyrirtæki brjóta reglur Facebook

Facebook bannar markaðssetningu til unglinga undir 18 ára.
Facebook bannar markaðssetningu til unglinga undir 18 ára. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Íslensk fyrirtæki eru í stórauknum mæli farin að nýta samskiptavefinn Facebook til markaðssetningar og nota þá gjarnan vinninga og leiki til að hrífa Facebook notendur inn á samskiptasíður fyrirtækjanna.

Leikirnir ganga jafnan út á að einstaklingar eru beðnir um að tengja sig fyrirtækissíðunni með því að smella á Like eða Líkar þetta, og deila síðunni svo með Facebook-vinum sínum. Þar með hafi þeir komist í vinningspott þeirra sem geta átt von á glaðningi af einhverju tagi. 

Á dögunum var efnt til leiks af þessu tagi á Facebook-síðu mbl.is en glöggir lesendur mbl.is brugðust skjótt við og bentu á leikurinn samræmdist ekki 4. kafla notendaskilmála Facebook sem varð til þess að leik mbl.is var snarlega breytt. Leyfilegt er að fá Facebook notendur til að tengja sig fyrirtækjasíðu í slíku kynningarátaki en óheimilt að biðja um að henni sé á einhvern hátt deilt til annarra. 

Ljóst er að mörg íslensk fyrirtæki brjóta þessar reglur, að því er virðist vegna vanþekkingar á reglum samskiptavefsins. Reglurnar kveða ennfremur á um að markaðssetning megi ekki beinast að einstaklingum sem eru yngri en 18 ára en þess eru dæmi að leikir sem þessir beinist nær eingöngu að unglingum. Þá er óheimilt að gefa t.d. áfengi, tóbak og skotvopn í Facebook-leikjum. 

Einstaka fyrirtæki eru skráð á Facebook sem um einstaklinga sé að ræða, með „prófíl“, en það er einnig brot á reglum Facebook. Notendur eru þar eindregið varaðir við því að samþykkja vinabeiðnir frá fyrirtækjum sem eru með einstaklingssíðu frekar en fyrirtækjasíðu. Sér í lagi vegna þess að sem „einstaklingur“ hefur fyrirtækið aðgang að öllum persónuupplýsingum um notandann, þar með talið fjölskyldumyndum og samskiptum við vini og vandamenn. 

Brot á notkunarreglum Facebook getur haft í för með sér að lokað er fyrir aðgang viðkomandi fyrirtækis að samskiptavefnum, til skamms tíma eða að fullu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert