Íslensk fyrirtæki brjóta reglur Facebook

Facebook bannar markaðssetningu til unglinga undir 18 ára.
Facebook bannar markaðssetningu til unglinga undir 18 ára. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Íslensk fyr­ir­tæki eru í stór­aukn­um mæli far­in að nýta sam­skipta­vef­inn Face­book til markaðssetn­ing­ar og nota þá gjarn­an vinn­inga og leiki til að hrífa Face­book not­end­ur inn á sam­skipt­asíður fyr­ir­tækj­anna.

Leik­irn­ir ganga jafn­an út á að ein­stak­ling­ar eru beðnir um að tengja sig fyr­ir­tæk­issíðunni með því að smella á Like eða Lík­ar þetta, og deila síðunni svo með Face­book-vin­um sín­um. Þar með hafi þeir kom­ist í vinn­ingspott þeirra sem geta átt von á glaðningi af ein­hverju tagi. 

Á dög­un­um var efnt til leiks af þessu tagi á Face­book-síðu mbl.is en glögg­ir les­end­ur mbl.is brugðust skjótt við og bentu á leik­ur­inn sam­ræmd­ist ekki 4. kafla not­enda­skil­mála Face­book sem varð til þess að leik mbl.is var snar­lega breytt. Leyfi­legt er að fá Face­book not­end­ur til að tengja sig fyr­ir­tækjasíðu í slíku kynn­ingar­átaki en óheim­ilt að biðja um að henni sé á ein­hvern hátt deilt til annarra. 

Ljóst er að mörg ís­lensk fyr­ir­tæki brjóta þess­ar regl­ur, að því er virðist vegna vanþekk­ing­ar á regl­um sam­skipta­vefs­ins. Regl­urn­ar kveða enn­frem­ur á um að markaðssetn­ing megi ekki bein­ast að ein­stak­ling­um sem eru yngri en 18 ára en þess eru dæmi að leik­ir sem þess­ir bein­ist nær ein­göngu að ung­ling­um. Þá er óheim­ilt að gefa t.d. áfengi, tób­ak og skot­vopn í Face­book-leikj­um. 

Ein­staka fyr­ir­tæki eru skráð á Face­book sem um ein­stak­linga sé að ræða, með „prófíl“, en það er einnig brot á regl­um Face­book. Not­end­ur eru þar ein­dregið varaðir við því að samþykkja vina­beiðnir frá fyr­ir­tækj­um sem eru með ein­stak­lings­síðu frek­ar en fyr­ir­tækjasíðu. Sér í lagi vegna þess að sem „ein­stak­ling­ur“ hef­ur fyr­ir­tækið aðgang að öll­um per­sónu­upp­lýs­ing­um um not­and­ann, þar með talið fjöl­skyldu­mynd­um og sam­skipt­um við vini og vanda­menn. 

Brot á notk­un­ar­regl­um Face­book get­ur haft í för með sér að lokað er fyr­ir aðgang viðkom­andi fyr­ir­tæk­is að sam­skipta­vefn­um, til skamms tíma eða að fullu.

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert