Dregur úr losun gróðurhúsalofttegunda

Losun gróðurhúsalofttegunda innan borgarmarkanna var 318 þúsund tonn árið 2009 eða 6,2% minni en 2007 þegar losunin var 340 þúsund tonn. Hver íbúi í Reykjavík losaði að meðaltali 2,7 tonn 2009 en 2,9 tonn 2007. Þetta kemur fram í skýrslu um heildarlosun gróðurhúsalofttegunda í Reykjavík sem unnin var fyrir Umhverfis- og samgöngusvið Reykjavíkurborgar.

„Losun gróðurhúsalofttegunda af mannavöldum veldur breytingum á loftslagi jarðar. Helstu afleiðingar loftslagsbreytinga eru hopun jökla, breytingar á náttúrufari, súrnun hafsins og hækkun sjávarborðs sem eykur hættuna á flóðum. Markmið Reykjavíkurborgar um heildarlosun gróðurhúsalofttegunda í Reykjavík er að losun á hvern íbúa verði um 1,7 tonn CO2e árið 2020 og um 0,6 tonn CO2e árið 2050.

Líkleg ástæða samdráttarins er tengd breyttum efnahag íbúa og minni umsvifum fyrirtækja ásamt hærra heimsmarkaðsverði á olíu. „Breyttur lífsstíll íbúa og vistvænni rekstur fyrirtækja og stofnana gæti komið í veg fyrir að losunin aukist aftur þegar efnahagurinn batnar á nýjan leik,“ segir Eygerður Margrétardóttir framkvæmdastýra Staðardagskrár 21, í fréttatilkynningu.

Helstu tækifæri til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda í Reykjavík eru fyrst og fremst falin í samgöngumálum og meðhöndlun úrgangs en þar er að finna helstu uppsprettur losunarinnar. Umferð bíla í Reykjavík er orsök 69% af heildarlosuninni og 22% kemur frá urðunarsvæðunum í borginni, samkvæmt tilkynningu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert