Áður óþekkt lífgerð fundin

Vísindamenn á vegum bandarísku geimferðastofnunarinnar NASA hafa fundið áður óþekkta gerð af lífi í vatni í Kalíforníu. Sameindauppbygging þessarar lífgerðar er ólík öðrum þekktum sameindauppbyggingum og bendir því til þess, að lífið hafi ekki þróast frá einum sameiginlegum forföður.

Allt líf á jörðinni, frá örverum til fíla og manna, byggjast á sama erfðamódelinu þar sem fosfór er einn af sex nauðsynlegum þáttum. En nú hafa vísindamenn fundið bakteríu, sem er með fimm af þessum þáttum en í stað fosfórs er arsen, eða arsenik, sem er svipað efni en baneitrað, að því er kemur fram á vef bandaríska blaðsins Washington Post.

Felisa Wolfe-Simon, vísindamaður hjá NASA, segir að þegar ljóst sé að líf á jörðinni og annarstaðar geti byggst á fleiri efnum en þeim sex sem til þessa hafi verið haldið, opnist allar dyr upp á gátt.  

Talið er að þessi uppgötvun sé jafn merkiþegar og þegar tókst að klóna lífverur en með henni hafa landamæri lífsins færst til.

Til þessa hefur verið talið að kolefni, súrefni, vetni, brennisteinn, köfnunarefni og fosfór séu nauðsynlegir þættir til að líf geti kviknað. Þetta breyttist þegar vísindamenn frá NASA rannsökuðu örverur, sem þeir fundu í Mono vatni í Kalíforníu. 

Vatnið er tvisvar sinnum saltara en sjór og í því er einnig mikið magn af arseniki. Vísindamennirnir einangruðu örverurnar og fjarlægðu allan fosfór en létu þær í mikið magn af arseniki. Undir eðlilegum kringumstæðum hefðu örverurnar drepist líkt og planta, sem ekki fær ljós. En þær þrifust hins vegar vel.

„Ég bjóst á hverjum degi við að þegar ég kæmi í vinnuna fengi ég þær leiðinlegu fréttir að örverurnar væru dauðar. En þær dóu ekki, þær lifa," sagði Wolfe-Simon.   

Vísindamennirnir komust að því, að örverurnar höfðu skipt út fosfór fyrir arsen en þessi efni eru afar skyld.

„Þessi uppgötvun snýst ekki um örverur eða Monovatn eða um arsen," sagði Wolfe-Simon. „Hún snýst um, að lífverur geta lifað af fleiri efnum en þeim sex, sem við höfum til þessa talið. Það þýðir, til dæmis, að það kann að leynast líf víðar en við héldum."

Bakteríurnar óvenjulegu.
Bakteríurnar óvenjulegu.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert