Árásir tölvuþrjóta á leitarvélina Google í Kína voru skipulagðar af háttsettum einstaklingi innan kínverska kommúnistaflokksins. Þetta er meðal þess sem kemur fram í leyniskjölum bandarískra stjórnvalda sem WikiLeaks hefur birt.
Samkvæmt skjölunum var árásin í upphafi skipulögð af kínverskum stjórnmálamanni sem fylltist fjandskap út í Google eftir að hann leitaði á vef fyrirtækisins og fann grein þar sem hann var gagnrýndur. Þetta kemur fram á vef Daily Telegraph og Guardian.
Árásirnar voru kornið sem fyllti mælinn hjá Google í Kína og í janúar hætti Google starfsemi í Kína þar sem netnotendur eru 400 milljónir talsins.
Árásirnar þóttu fagmannlegar á sínum tíma og kom fram í frétt AFP að samkvæmt öryggisfyrirtækinu McAfee bæru þær merki fagmennsku og samstillingar sem væri umfram það sem búast mætti við af dæmigerðum tölvuþrjótum.
Áhlaupið beindist fyrst og fremst að upplýsingu sem var að finna í tölvupósti kínverskra mannréttindafrömuða.
Microsoft tók á sig sökina og viðurkenndi að vafrinn Internet Explorer, nánar tiltekið Internet Explorer 6, hafi verið veiki hlekkurinn í árásunum á Google.
Í sumar var hins vegar starfsleyfi Google endurnýjað í Kína en allt þar til nú hefur það ekki verið almennt vitað hverjir stóðu á bak við árásirnar.