Hættir netárásum

Tölvuhakkaranir lömuðu vefsíður Mastercard og Visa tímabundið með árásum sínum.
Tölvuhakkaranir lömuðu vefsíður Mastercard og Visa tímabundið með árásum sínum. Reuters

Hópur tölvuhakkara sem styður Wikileaks er hættur að gera netárásir á fyrirtæki og stofnanir sem hafa neitað að þjónusta uppljóstrunarvefinn eða snúið baki við honum. Þess í stað ætla þeir að dreifa Wikileaks-gögnunum sem víðast á netinu.

Vefsíður greiðslukortafyrirtækjanna Visa og Mastercard hafa m.a. legið niðri í kjölfar árása tölvuhakkaranna, sem kalla sig „Nafnlaus“ (e. Anonymous). En bæði Visa og Mastercard hafa neitað að afgreiða greiðslur til Wikileaks.

Bandarísk yfirvöld hafa beitt ýmis fyrirtæki og stofnanir þrýstingi vegna málsins, sem þykir hið vandræðalegasta fyrir bandarísk yfirvöld. M.a. hefur verið þrýst á Amazon vefverslunina og greiðsluþjónustuna PayPal, sem eru hætt að þjónusta Wikileaks.

Í bloggi sem hópurinn sendi frá sér í nótt kemur fram að þeir muni nú breyta um hernaðaráætlun. Stefnt sé að því að birta leyniskjölin eins víða og hægt sé á netinu og gera mönnum eins erfitt og mögulegt sé að rekja uppruna skjalanna, að því er segir á vef Reuters.

Hópurinn gerði m.a. PayPayl skráveifu með árásum sínum en þeim tókst ekki að leggja niður vefsíðu Amazon.

„Við höfum í besta falli gefið þeim glóðarauga. Nú hefur leikurinn breyst. Og þegar leikurinn breytist þá breytist hernaðaráætlun okkar,“ segir í bloggfærslunni þar sem aðgerðin „Leakspin“ er kynnt til sögunnar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert